Skip to Content

Stefna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka


1.            Tilgangur og markmið        

Tilgangur stefnu þessarar er að koma á og viðhalda skilvirku kerfi til að sporna við að þjónusta og vörur Boðleiðar þjónustu ehf. (Hér eftir Boðleið) verði notaðar í ólöglegum tilgangi er tengist peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Markmið stefnunnar er að lýsa ábyrgð, hlutverki og helstu verkefnum ábyrgðaraðila. Einnig er fjallað um helstu aðferðir vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ásamt skýrslugerð og tilkynningarskyldu. 

Með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er vísað til þess þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við, nýtir eða aflar sér með einhverjum hætti ávinnings sem verður til vegna brots sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Samkvæmt framangreindu geta öll brot sem eru refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum verið frumbrot peningaþvættis. Þetta geta verið brot sem kunna að hafa fjárhagslegan ávinning svo sem fíkniefnaviðskipti, fjársvik, vörusvik, skattalagabrot, innherjasvik, þjófnaður, fjárkúgun, mútur, mansal, vændi, sala á barnaklámi o.s.frv. Það telst jafnframt vera peningaþvætti þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir ávinningi af refsiverðu broti, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Traustum vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er ætlað að hindra eða a.m.k. að draga verulega úr því að fjármunum sem stafa frá ólögmætri háttsemi verði komið í umferð í hinu hefðbundna fjármálakerfi og þar með standa vörð um trúverðugleika, stöðugleika og orðspor fjármálamarkaðarins og Boðleiðar.

Stefnan og tengd skjöl hennar taka mið af lögum nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, lögum nr. 68/2023, um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, og reglugerðum sem byggja á framangreindum lögum.

 

2.            Ábyrgðaraðilar og helstu verkefni

Stefnan nær til stjórnar, stjórnenda og starfsmanna Boðleiðar og er þeim  skylt að starfa og halda utan um alla þætti er snúa að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í samræmi við skilgreint verklag og ferla vegna afhendingar á þjónustu og vörum Boðleiðar.

Stjórn ber ábyrgð á að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits sem tekur á þeim eftirlitsþáttum sem beinast að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að stefnu stjórnar sé framfylgt. Hann skal reglulega kanna hvort unnið sé í samræmi við skilgreint verklag vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og fjalla reglulega um virkni aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skal taka út virkni eftirlitsþátta sem draga úr þeirri áhættu að þjónusta og vörur Boðleiðar séu nýttar í tengslum við peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Hann skal einnig upplýsa um hvernig staðið var að þjálfun og menntun starfsmanna og annast tilkynningar um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi, í samstarfi við æðsta stjórnanda Boðleiðar. Hann skal hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem geta skipt máli vegna tilkynninga.

Starfsmönnum ber að starfa samkvæmt þeim ferlum og verklagi sem Boðleið hefur innleitt. Starfsmenn þurfa að þekkja tilgang og eðli þeirra eftirlitsaðgerða sem þeir framkvæma. Þeir þurfa að vera vakandi fyrir viðeigandi aðgerðum gegn peningaþvætti og hryðjuverkum, sýna árvekni gegn hugsanlegum svikum og upplýsa yfirmann sinn ef þeir telja að þjónusta eða vörur Boðleiðar séu notaðar í peningaþvætti eða til fjármögnunar hryðjuverka. Einnig ber þeim að upplýsa stjórnendur ef þeir telja að eftirlitsaðgerðum til mildunar áhættu sé áfátt eða ef eftirlit sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við þau markmið sem Boðleið hefur sett sér.

 

3.            Aðgerðir og skýrslugerð

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skulu m.a. felast í gerð áhættumats. Matið skal innihalda skriflega greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptasamböndum, viðskiptalöndum eða svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Áhættumat skal einnig taka mið af stærð, eðli og umfangi á starfsemi og margbreytileika starfseminnar. Áhættumatinu er ætlað að leiða í ljós helstu áhættuþætti er tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Áhættumatið er grundvallarþáttur í áhættumiðuðu eftirliti og leggur grunninn að viðeigandi eftirlitsþáttum sem skulu vera innbyggðir í ferla og verklag. Hluti af eftirlitsþáttum er vöktun á viðskiptamynstri. 

Boðleið skal hafa aukið eða kerfisbundið eftirlit með framkvæmd viðskipta. Settar skulu sérstakar reglur þar að lútandi.

Ábyrgðarmaður aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skal með reglubundnum hætti skila skýrslu til stjórnar Boðleiðar um störf sín þar sem hann upplýsir um fjölda atvika sem upp hafa komið á árinu, fjölda tilkynninga til eftirlitsaðila og önnur tilvik mála sem upp koma.

Endurskoða skal stefnu þessa árlega eða oftar ef tilefni er til.

 

Samþykkt af stjórn Boðleiðar 10. nóvember 2025 og undirritað rafrænt.

 

Kristinn Elvar Arnarson, Kristín Tinna Aradóttir og Þorvaldur Ægir Harðarson